Um Óskar
Ég er fæddur í Reykjavík 1965 og hef stundað myndist frá unga aldri og var á árunum 1975 - 1981 í Mynd- og handíðarskóla Íslands. Draumurinn um að leggja alfarið stund á myndlistina varð aldrei að veruleika vegna annarra hugðarefna sem voru þá helst kvikmyndatengd eða sögusmíðar.
Vegir lífsins geta oft tekið á sig ýmsar sveigjur og beygjur og nokkrar slíkar urðu til þess að árið 1989 ég fór utan til Þýskalands og útskrifaðist þaðan sem Sjóntækjafræðingur árið 1993. Áhugi á listum var þó aldrei langt undan og ég fann henni farveg í náminu og eftir það með því að hanna gleraugnaumgjarðir. Árið 1994 hélt ég sýningu ásamt Nínu Hlöðversdóttur ljósmyndara á Sólon Íslandus þar sem við sýndum ljósmyndir af helstu poppstjörnum þess tíma sem báru gleraugu sem ég hannaði.
Ég lét annan gamlan draum rætast þegar ég ákvað að láta reyna á skrifin og mín fyrsta glæpaskáldsaga; Hilma kom út árið 2015. Sagan hlaut glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann þegar hún var valin besta skrifaða glæpasagan og um leið tilnefnd sem besta glæpasaga Norðurlanda það árið. Í framhaldinu hef ég skrifað skáldsögurnar Blóðengil, Boðorðin, Dansarann og Brúðumeistarann og þegar þetta er ritað, er ég að vinna að sjöttu glæpasögunni sem kemur út í nóvember 2025.
Í gegnum tíðina hef ég haldið einar sjö málverkasýningar ef ég man rétt og núna síðast í Gallerí Epal eða í júní 2025.